144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni.

655. mál
[15:48]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að leggja orð í belg um gildi samningsins um líffræðilega fjölbreytni, sem ég tel mjög mikilvægan fyrir Ísland. Ég hef lengi velt því fyrir mér hvernig við getum komið þekkingu á samningnum og þeirri þýðingu sem hann hefur til almennings og hvernig við getum fléttað fræðsluefni um innihald og gildi samningsins inn í námsefni grunnskólanna. Ég man til að mynda eftir því að hafa fylgst með verkefni, sem var held ég norrænt, þar sem börn a aldrinum 10–12 ára tóku þátt í verkefni um líffræðilega fjölbreytni og unnu með hafið í sinni heimabyggð.

Mig langar að beina spurningu til bæði fyrirspyrjanda og ráðherra: Hvernig mætti koma fræðslu um þessi mál betur til skila?