144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

stefna í friðlýsingum.

658. mál
[16:18]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Stefna ráðherra hvað varðar friðlýsingar á grunni náttúruverndaráætlunar og verndarflokks rammaáætlunar er að fylgja því sem viðkomandi þingsályktanir segja til um. Þar eru tilgreind ákveðin svæði á landinu sem stefnt skuli að því að friðlýsa samkvæmt lögum um náttúruvernd.

Í tilmælum í lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun hvað varðar verndarflokk gildandi rammaáætlunar segir eftirfarandi:

„Stjórnvöld skulu þegar Alþingi hefur samþykkt verndar- og orkunýtingaráætlun hefja undirbúning að friðlýsingu landsvæða sem ástæða þykir til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu samkvæmt verndarflokki áætlunarinnar. Um friðlýsingu vegna náttúruverndar fer samkvæmt lögum um náttúruvernd en um friðlýsingu vegna menningarsögulegra minja fer samkvæmt þjóðminjalögum.“

Hvað varðar friðlýsingar að frumkvæði landeigenda og/eða sveitarfélaga er tekin afstaða til slíkra beiðna í hverju tilviki fyrir sig. Þar sem slíkar friðlýsingar hafa ekki farið í gegnum það faglega undirbúningsferli sem liggur að baki þingsályktunartillögu um friðlýsingar á grunni náttúruverndaráætlunar eða rammaáætlunar þarf að skoða slík tilvik sérstaklega og leggja mat á náttúruverndargildi viðkomandi svæðis og þær forsendur sem liggja að baki óskum viðkomandi aðila.

Staða þessara friðlýsinga er mislangt á veg komin og gerir Umhverfisstofnun árlega grein fyrir stöðu þeirrar vinnu í skýrslum. Sú vinna heldur áfram. Ég hef nefnt það áður hvort við séum með fullmargar friðlýsingar undir og það tefji málið, hvort betra hefði verið að hafa þær færri og vinna þær hraðar. Í upphafi skyldi endinn skoða. Þegar ég hef horft á þessar friðlýsingar og náttúruvernd undanfarið hefur mér ekki þótt harmónera saman friðlýsingin og það fjármagn sem fylgja hefur þurft til þess að geta gætt að svæðinu. Það þýðir lítið að friðlýsa ef maður hefur síðan ekki verndina áfram að leiðarljósi.

Þá hefur komið í ljós að nákvæm afmörkun þeirra landsvæða sem sett voru í verndarflokk og unnið er að friðlýsingum á samkvæmt ákvæðum laga nr. 48/2011, er ekki með skýrum hætti og það hefur líka tafið fyrir. Kannski væri betra og skýrara ef við hefðum ákveðna lágmarksafmörkun hvers virkjunarkosts í verndarflokki og að fram kæmi í þingsályktunartillögu um áætlun um vernd- og orkunýtingu landsvæða hver lágmarksafmörkunin væri.

Nú gerum við ráð fyrir að afmörkunin komi fram í framtíðartillögum verkefnisstjórnar sem nú er að störfum. Afmörkun svæða hefur einnig tafið fyrir þeirri vinnu að ná samkomulagi við landeigendur. Ég gat um það fyrr í dag að undirstofnanir ráðuneytisins hafa gert með sér samkomulag um að vinna þéttar saman að hinni ýmsu kortlagningu náttúrunnar og landsins. En friðlýsing er skuldbinding til framtíðar og við þurfum að hafa langtímahugsun að leiðarljósi. Ég get getið þess að þegar er búið að friðlýsa um 20% af landinu.

Mitt álit er og ég endurtek að við eigum að setja í forgang ákveðnar friðlýsingar og þá jafnvel stærri svæði. Ég vil friðlýsa og mér finnst meiri ávinningur af því að vernda stærri svæði fremur en kannski mörg minni þannig að þau fái þá fjármagn til rekstrar sem einnig verði unnið að svo vel sé gert.

Við erum öll sammála um að það þarf meira fjármagn til verndar náttúrunni og vonir standa til þess að úr því rætist sem allra fyrst, eða það vona ég. Ég hef sett af stað vinnuhóp sem hefur það hlutverk að kortleggja og forgangsraða bráðaaðgerðum til uppbyggingar á friðlýstum svæðum. Þar á meðal eru svæði sem eru í hættu á svokölluðum rauðum og appelsínugulum listum Umhverfisstofnunar. Sú vinna fellur vel að frumvarpi um langtímauppbyggingu á ferðamannastöðum sem ég hef lagði nýlega fram á Alþingi um (Forseti hringir.) … innviða. Ég held að ég megi segja að ríkisstjórn Íslands gerir sér fulla grein fyrir því að það þarf að taka til hendi (Forseti hringir.) varðandi það að friða og vernda þessi svæði (Forseti hringir.) ...