144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að óska hv. þingmönnum Samfylkingarinnar til hamingju með daginn.

Í allsnægtum nútímans er mikil sóun á ýmsum verðmætum sem vissulega má nýta betur. Allsnægtirnar eru nefnilega ekki alls staðar en það að eiga nóg af einhverju gefur okkur ekki leyfi til að fara illa með því að við erum hluti af heild þar sem allt hangir einhvern veginn saman og framlag hvers og eins skiptir máli.

Samkvæmt upplýsingum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna er áætlað að árlega fari 1,3 milljarðar tonna matvæla til spillis. Þetta er álíka mikill matur og framleiddur er árlega í Afríku sunnan Sahara-eyðimerkurinnar. Á sama tíma fer ein af hverjum sjö manneskjum í heiminum svöng að sofa og yfir 20 þús. börn deyja daglega úr næringarskorti.

Þessar staðreyndir endurspegla verulegt ójafnvægi þegar kemur að lífsstíl fólks sem aftur hefur stórfelld áhrif á umhverfið, meðal annars vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, land- og vatnsnotkunar og ýmissar mengunar sem hlýst af matarframleiðslu. Þetta virðist allt vera langt í burtu frá okkur en auðvitað er það ekki svo. Sem betur fer höfum við Íslendingar nú tekið þessi mál á dagskrá og reynt að spyrna við fótum gegn matarsóun hér á landi. Haldnar hafa verið ráðstefnur og fundir á vegum ýmissa félagasamtaka eins og Kvenfélagasambands Íslands þar sem málefnið hefur verið tekið fyrir. Eins og fram hefur komið er umfang matarsóunar hér á landi því miður ansi mikið.

Þetta er grafalvarlegt mál því að matarsóun hefur víðtæk áhrif, bæði á náttúru, umhverfi og hagkerfi heimsins. Ég vil því vekja athygli á því að starfshópur sem umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði síðasta haust hefur nú skilað af sér skýrslu þar sem fram kemur ágætisyfirlit yfir stöðu mála og lagðar eru til hugmyndir að leiðum til að draga úr matarsóun. Það er von mín að þessi skýrsla ásamt fleirum verði grunnur að samhentu átaki okkar allra til að bæta okkur á þessu sviði.