144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[15:57]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég held að það sé nákvæmlega þannig. Það mun auðvitað vekja upp skylduna. Tökum bara eitt fjármálafyrirtæki, það þarf ekki að vera meira, að þar hafi verið unnið með þeim hætti að það sé saknæmt og það vinni gegn hagsmunum eigenda fyrirtækisins, annarra á fjármálamarkaðnum og svo auðvitað enn annarra í samfélaginu því að það hefur yfirleitt víðtæk áhrif þegar eitthvað gerist á fjármálamarkaði þá mun náttúrlega vakna upp sú spurning þegar í ljós hefur komið að eitthvað hafi farið alvarlega úrskeiðis að þar voru einstaklingar sem höfðu upplýsingar og hefðu átt að láta vita. Það mun auðvitaða auka vitund fólks um það að þögn er sama og samþykki og viðkomandi getur þá orðið aðili að þessu misferli af því að hann sagði ekkert. Það er verið að vinna með svo ríka hagsmuni. Þarna eru gríðarlegur fjármunir og mjög erfitt fyrir einstakling að rísa upp gegn slíku. Við eigum ekki að gera lítið úr því, þó að manni geti fundist utan frá séð að einhver ætti nú að gera eitthvað. Það eru oft valdamiklir einstaklingar að verki með mikla fjármuni á bak við sig. Þetta getur þýtt ákveðna félagslega útskúfun fyrir fólk og efnahagslegt áfall. Þetta er meira en að segja það. Það þarf að búa vel um hnútana (Forseti hringir.) svo að fólk geti risið undir þeirri skyldu sem verndin mundi fela í sér.