144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[16:21]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, að gefnu tilefni, eins og þingmaðurinn nefndi, treysti ég ekki Fjármálaeftirlitinu mjög vel að hafa eftirlit með því að fjármálafyrirtæki séu ekki að brjóta þau lög sem Fjármálaeftirlitið á að fylgjast með að þau brjóti ekki. Og þegar þau hafa verið rannsökuð eftir að það hefur staðið aðila á fjármálamarkaði að brotinu, að nýta þá þær heimildir sem eru í lögum að einhverju marki sem hefur letjandi áhrif á áframhaldandi brot, eins og ég kom inn á í ræðu minni. Það sem væri hægt að gera er að festa strax í lögin, eins og ég nefndi í ræðunni, einhvers konar forsendur sem segja að eftir alvarleika brotsins eða eftir því hvað menn högnuðust mikið á því o.s.frv. hækki sekt þá um einhverjar prósentur. Það er ein prósentutöluhækkun sem fest er þar, það hefur að gera með upp að hámarki 10% af einhvers konar fjárhagsgrundvelli fyrirtækisins. Það er svo sem bara hámark, það segir ekki hvernig við þau ýmis atriði, sem nefnd eru í frumvarpinu að megi hækka, skuli hækka. Ég treysti ekki Fjármálaeftirlitinu, þegar í lögum eru bara heimildir en ekki skylda til að hækka, til þess að gera það. Það er eitthvað sem væri hægt að setja í lögin.

Já, svo er líka eitt, sjáið til. Seðlabankinn hefur alls konar verkfæri og hafði alls konar verkfæri á bólutímabilinu til að fara inn í og grípa inn í það. Það kom fram á opnum fundi í efnahags- og viðskiptanefnd hjá peningastefnunefnd ekki síðast heldur þarsíðast, minnir mig, þegar ég spurði. Þá komu þeir inn á það að það vildi enginn taka bolluna úr partíinu, menn hefðu verið skammaðir fyrir að gera það o.s.frv. Menn eru því ekki að beita þeim verkfærum, ekki Seðlabankinn, ekki Fjármálaeftirlitið, eða þeim heimildum sem þeir meira að segja hafa í lögum. Það þarf að setja eitthvað í lög, eins og að skylda þá til að gera það. Í tilfelli þessara laga væri hægt að gera það, eins og ég nefni, með því að setja það í lögin hvernig sekt hækkar eftir alvarleika brota o.s.frv.