144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:08]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hefði gjarnan viljað nota þetta andsvar til að eiga orðastað um efnisleg atriði í frumvarpinu. Eins og hæstv. fjármálaráðherra er kunnugt um er ég algjörlega mótfallinn frumvarpinu og skil ekkert í honum að vera að kalla yfir sig öll þau vandræði sem munu hljótast af því að samþykkja það. Það er algjörlega ljóst að fyrir dyrum standa sölur á hugsanlega einhverjum hlutum í sparisjóðunum, í bönkunum tveimur, en síðan bendir allt til þess að innan skamms kunni líka tveir stórir bankar að lenda á skrifborði ráðherrans. Eiga þeir að vera þar? Ég hafna því algjörlega að fara þessa leið.

Það sem mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um varðar þó ekki þetta frumvarp, kem að því síðar í ræðu minni í dag, heldur: Er meiri hluti fyrir þessu á Alþingi Íslendinga? Er það alveg ljóst að stjórnarliðið standi á bak við þetta? Það kom fram í umræðu hér í dag milli mín og hv. þm. Frosta Sigurjónssonar að nokkur fjöldi, ótilgreindur þó, þingmanna Framsóknarflokksins hefur fyrirvara við frumvarpið. (Forseti hringir.) Það liggur fyrir að flokksþing Framsóknarflokksins hefur samþykkt ályktun gegn þessu frumvarpi. Sömuleiðis liggur fyrir að flokksþing Framsóknarflokksins hefur samþykkt að ekki eigi að selja Landsbankann.