144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru ágætisspurningar um lykilþætti málsins. Ég sé fyrir mér að ráðgjafarnefndin þiggi þóknun í samræmi við umfang verkefnanna. Ég bið menn að velta aðeins fyrir sér hvað Bankasýslan er að gera dagsdaglega með þrjá stjórnarmenn og tvo til þrjá starfsmenn. Eru menn að verðmeta Landsbankann alla daga? Er svona mikil umsýsla með eignarhlutum ríkisins í sparisjóðunum eða öðrum minnihlutahlutum ríkisins í öðrum fjármálafyrirtækjum? Halda menn virkilega að það sé fullt tilefni til að vera með heila stofnun um þessi verkefni? Ég tel að svo sé ekki. Ég tel reyndar löngu ljóst að svo sé ekki.

Ef menn eru hins vegar komnir í sölumeðferð á stórum eignarhlutum þurfa fleiri að koma að því verkefni og við munum án vafa þurfa að leita utanaðkomandi aðstoðar til að halda utan um það. Það mun reyna á ráðgjafarnefndina eftir því í hversu stórum verkefnum við erum hverju sinni og ef menn eru ekki í neinni sölumeðferð heldur meira bara að móta eigandastefnuna (Forseti hringir.) held ég að hlutverk ráðgjafarnefndarinnar verði ekki mjög stórt.