144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[20:37]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp um meðferð á sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, en áður en ég fer yfir það langar mig að ræða aðeins um ríkisfjármálaáætlunina og hvað í henni stendur þegar talað er um Landsbankann og hluti okkar í fjármálastofnunum.

Ríkisfjármálaáætlun var lögð fram nokkrum dögum áður en flokksþing Framsóknarflokksins var haldið. Þar er talað um það brýna viðfangsefni í stjórn ríkisfjármála að lækka skuldir. Rætt er um hver staðan er og uppsöfnuð vaxtagjöld eru frá 2009–2015 orðin um 580 milljarðar kr., sem er engin smáupphæð. Við höfum verið að greiða 80–90 milljarða kr. á ári í skuldir og ég er sannarlega sammála því sem fram kemur í ríkisfjármálaáætluninni að brýnasta viðfangsefnið í stjórn ríkisfjármála er að lækka skuldir. Þegar þjóð stendur eins og við gerum með skuldastöðu upp á 1.500 milljarða kr. þá stöndum við mjög veik fyrir og við þolum ekki utanaðkomandi áföll og ég óttast bara um sjálfstæði þjóðarinnar ef eitthvað kemur upp á þannig að ég tek sannarlega undir að þetta er brýnt verkefni.

Þegar áfram er lesið í ríkisfjármálaáætluninni er talað um að skuldastaðan lækki umtalsvert á tímabilinu 2016–2019 miðað við verga landsframleiðslu, hún lækki úr 68% af vergri landsframleiðslu í um 50% í árslok 2019, sem er þokkaleg staða. En lækkunin á skuldahlutfallinu er að mestu leyti vegna þess að það er vöxtur á vergri landsframleiðslu um 25%, sem er ansi mikið. Nafnvirði skuldanna lækkar um innan við 10% og það er tvennt sem kemur þar til. Það er að gjaldeyrisvaraforðinn verði minnkaður og síðan sala á 30% eignarhlut okkar í Landsbankanum og minni hlutum í Arion og Íslandsbanka, þannig að stærsti hlutinn af niðurgreiðslu skulda, að nafnvirði, kemur úr sölu hluta okkar í bönkunum. Þetta á að gefa okkur 3–4 milljarða kr. í vaxtagjöld og gert er ráð fyrir því í fjárlögum fyrir árið 2015 að við greiðum niður skuldir um 35,5 milljarða kr. sem eiga að koma úr sölu þessara eignarhluta. Það er dágóður skildingur, og á aftur að virka fyrir árið 2016.

Síðan er haldið flokksþing framsóknarmanna og þar er samþykkt að tillögu hv. þm. Frosta Sigurjónssonar, sem er formaður efnahags- og viðskiptanefndar, að ekki eigi að selja nokkurn skapaðan hlut í Landsbankanum og einnig var gerð samþykkt um hlutverk hans sem stangast algerlega á við það sem fram kemur í sjálfri ríkisfjármálaáætluninni. Ég vænti þess að sú áætlun hafi verið samþykkt í ríkisstjórn, eða hvað? Hæstv. ráðherrar Framsóknarflokksins hafa væntanlega samþykkt áætlunina þar sem er inni sala á eignarhlutnum í Landsbankanum og hæstv. forsætisráðherra væntanlega þar með. Síðan kemur flokksþingið og þá kemur þessi samþykkt. Jæja, látum gott heita. Það var sem sagt búið að leggja ríkisfjármálaáætlunina fram fyrir flokksþingið en síðan er lagt fram frumvarp til laga um meðferð á sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Það er lagt fram eftir samþykkt Framsóknarflokksins, eftir að ljóst er að hv. þingmenn Framsóknarflokksins vilja ekki selja 30% í Landsbankanum og hafa ákveðnar hugmyndir um hlutverk hans og rekstrarform. Samt sem áður hefur frumvarpið væntanlega farið í gegnum ríkisstjórnina og hæstv. ráðherrar Framsóknarflokksins ásamt hæstv. forsætisráðherra samþykkt hana. Hér kemur skýrt fram í 7. gr. að gert er ráð fyrir að selja eigi eignarhlut ríkisins í Landsbankanum hf. umfram 70% hlut ríkisins af heildarhlutafé bankans, það er sem sagt heimild til að gera þetta.

Frú forseti verður að fyrirgefa mér þótt ég skilji í raun og veru ekkert í þessu. Það er þannig að frumvörp fara í gegnum hæstv. ríkisstjórn með samþykki hæstv. ráðherra og þau fara út úr stjórnarþingflokkunum og síðan deyja þau drottni sínum eins og náttúrupassinn sálugi. Mér sýnist að ríkisfjármálaáætlunin, a.m.k. að hluta til hvað varðar niðurgreiðslu skulda, og þetta frumvarp hér um sölu eignarhluta ríkisins ætli að fara sömu leið. Stjórnunarhættir þessarar hæstv. ríkisstjórnar eru mér hulin ráðgáta.

Hér kom hv. þm. Frosti Sigurjónsson í pontu áðan og ræddi þetta frumvarp og ég get tekið nánast undir langflest sem hann sagði um það. Hann velti því fyrir sér hvort það væri í raun og veru tímabært að fara fram með breytingar á umgjörðinni um sölu eignarhlutanna og hvort það væri í raun til bóta. Hv. þm. Frosti Sigurjónsson taldi ekki rétt að fjárlaga- og efnahagsráðuneytið héldi utan um málið, hann fann því ýmislegt til foráttu, það væri kannski ekki gott að ráðuneyti sem sæi um eftirlit væri einnig að sýsla með eignarhluta og talaði um að óheppilegt væri að taka þennan millilið úr ferlinu, þ.e. taka Bankasýsluna úr ferlinu. Síðan efaðist hann um að í Ríkiskaupum væri næg sérþekking til að sjá um söluferlið. Nú þekki ég það ekki en vera má að þar sé þekking til staðar sem má nýta. Síðan velti hv. þingmaður fyrir sér, sem jafnframt er formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hvort ástæða væri til að breyta því sem hefur gengið vel, því ferli sem samþykkt var í desember 2012 og lögum um Bankasýsluna sem voru samþykkt haustið 2009. Hann talaði um gagnsæi og það væri ekki nægilegt með þessu frumvarpi. Undir þessi atriði get ég tekið með hv. þm. Frosta Sigurjónssyni, sem jafnframt er formaður efnahags- og viðskiptanefndar og þingmaður Framsóknarflokksins, og bar upp tillöguna um hlutverk banka og sölu eignarhlutanna á þingi Framsóknar.

Hér eru menn ekki sammála um í hvaða nefndir ætti að vísa þessu máli. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra vill að málið fari til fjárlaganefndar. Ég er í sjálfu sér ekki hissa á því vegna þess að þar eru þrír af fjórum hv. þingmönnum sem skipa hagræðingarhóp ríkisstjórnarinnar; formaður fjárlaganefndar, varaformaður fjárlaganefndar og svo aðstoðarmaður forsætisráðherra, öll þrjú sitja í fjárlaganefnd sem hæstv. ráðherra vill að fjalli um frumvarpið. Það segir enda í skýrslu hagræðingarhópsins, en hann skilaði eins og kunnugt er 111 tillögum um hvernig mætti hagræða í ríkisrekstri, í tillögu nr. 64: „Bankasýsla ríkisins verði lögð niður og verkefni hennar flutt til fjármála- og efnahagsráðuneytisins.“

Það er sannarlega verið að fara eftir tillögum hagræðingarhópsins en það er gert þannig að það vekur upp tortryggni og er sannarlega ekki til þess fallið að stuðla að auknu trausti. Hér hefur verið rifjað upp í umræðunni í dag að þegar einkavæðingin fór fram á bönkunum á sínum tíma þá var pólitíkin með puttana í því máli, alveg á bólakafi. Því er haldið fram að þar hafi ógæfan byrjað varðandi bankahrunið og það endaði ekki vel og það er auðvitað fólkið í landinu sem hefur borið kostnað af því ævintýri öllu. Við viljum ekki fara aftur á þann stað. Það var einmitt hugmyndin með samþykktinni í desember 2012 að reyna að passa að það væri gagnsæi og það væri líklegt að menn treystu því að pólitíkusar væri ekki að úthluta eignarhlutum í bönkunum til þeirra sem þeim líkaði við.

Ég hef áhyggjur af því sem kemur fram í 8. gr. þessa frumvarps. Berum hana saman við 1. gr. í lögum sem samþykkt voru í desember 2012, þar er talað um að fjármálaráðherra sé heimilt að fara með sölu eignarhluta í bönkunum eftir samþykkt í fjárlagafrumvarpi og að tillögu Bankasýslunnar. Síðan er talað um nefndirnar alveg eins og í þessu frumvarpi sem við fjöllum um hér og Seðlabankann með sama hætti. En í 8. gr. þessa nýja frumvarps, sem er samsvarandi 1. gr. í lögunum sem eru í gildi, er talað um að fjármálaráðherra geti bara gert þetta að eigin frumkvæði og síðan er hann með sér til ráðgjafar hóp þriggja manna, ef ég man rétt, sem hann hefur sjálfur skipað.

Frú forseti. Þetta er ekki til þess fallið að koma til móts við væntingar um að við stjórnmálamenn stuðlum að trausti í samfélaginu og vinnum okkur inn aukið traust í samfélaginu. Það hefur verið helsta meinið í samfélaginu frá hruni, skortur á trausti á lykilstofnunum í samfélaginu og á stjórnmálamönnum. Ég held að vísu að ég þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að þetta frumvarp verði samþykkt vegna þess að stjórnarflokkarnir eru ekki sammála um það. Ég get ekki séð hver afdrif þessa frumvarps eiga að verða og spái því að frumvarpið hljóti sömu örlög og náttúrupassinn sálugi. Það mál kom þó inn í þingið en það eru frumvörp, stórmál sem óeining er um, eins og t.d. frumvarp um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, sem aldrei komu hingað inn í þingið. Þannig að stjórnin er ekki sammála. Mér finnst sjálfsagt að forseti tali um það við stjórnarflokkana að ekki sé nægilega gott að verið sé að eyða tíma okkar í þinginu, þegar mörg önnur mikilvæg mál liggja fyrir, til að ræða frumvarp sem við vitum að aldrei verður samþykkt vegna þess að stjórnarflokkarnir eru ekki einhuga í málinu. Mér liggur við að segja að yfir þessu frumvarpi vofi náttúrupassaheilkennið sem og fleirum frumvörpum sem koma frá hæstv. ríkisstjórn.