144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[22:35]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur ræðu hennar um frumvarp um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Hún kom víða við í ræðunni. Flokksþing okkar framsóknarmanna var henni mjög hugleikið, enda um margt vel heppnað og væri ég alveg til í að ræða margt af því. En ég ætla að halda mig við þetta frumvarp og það er tvennt sem skiptir máli í frumvarpinu. Það er að armslengdar sé gætt til hins ýtrasta og að öll meðferð og sala sé opin og gagnsæ. Ég ætla ekki að gefa mér það fyrir fram að það sé ekki hægt að tryggja í frumvarpinu.

Ég vil spyrja hv. þingmann varðandi ráðgjafarnefndina, það sem kemur fram í 4. gr., hvort hún sjái fyrir sér að hægt verði að gæta ýtrustu armslengdar með því að (Forseti hringir.) breyta fyrirkomulaginu eitthvað, skipan eða staðsetningu nefndarinnar.