144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[22:54]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eftir að ég frétti af þessari tillögu um ráðherravæðingu og aflagningu Bankasýslu ríkisins fletti ég upp á þeirri grein frumvarpsins sem lýtur að ráðgjafarnefndinni, sem á að vera ráðherranum til halds og trausts.

Þar segir í 4. gr., með leyfi forseta:

„Í ráðgjafarnefnd um fjármálafyrirtæki í ríkiseigu sitja þrír einstaklingar og einn til vara, skipaðir af ráðherra án tilnefningar.“ — Ráðherrann ræður algerlega hverjir þarna eru á ferðinni.

Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Ráðherra skipar einn þeirra formann og ákveður þóknun nefndarmanna. Ráðuneytið skal leggja nefndinni til starfsaðstöðu og aðra þjónustu sem nefndin þarf á að halda.“ — Þetta er algerlega innan þess ramma sem ráðherrann heldur utan um.

Síðan er reyndar kveðið á um að þessir einstaklingar skuli vera lögráða og ekki hafa hlotið dóm svona á síðustu árum vegna brota í atvinnurekstri. Það er nú gott til þess að vita. (Forseti hringir.) En þarna er þetta algerlega stimplað inn, ráðherrann á að ráða, hann skipar nefnd sem er án tilnefninga og starfar algerlega á hans vegum.