144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[23:28]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég segja að þegar ég segi „einlægur ásetningur“ þýðir það eiginlega að allt sem gert hefur verið bendir í sömu átt. Orð mín til nýrra þingmanna eru viðvörunarorð. Hér er verið að breyta, og ég sagði í upphafi: Ef maður ætlar að breyta þá breytir maður til að bæta. Það sem ég vil vita er: Af hverju er verið að breyta? Jú, menn ætla samtímis að reyna að tryggja allt það sem Bankasýslan átti að gera í nýju formi. Þá segi ég að ráðgjafarnefnd sem skipuð er af hæstv. ráðherra, sem fer með málaflokkinn sjálfan, skapar tortryggni. Þetta skapar tortyggni hjá mér. Hefði ekki átt að láta til dæmis Alþingi skipa í hana og þá eftir ákveðnum reglum þar sem stjórnmálamenn kæmu ekkert nálægt því hverjir væru skipaðir, eða Hæstiréttur eða einhver annar?

Við erum að búa til kerfi sem býður upp á það að einn og sami aðilinn skipi í allt umhverfið sem á svo að véla um það. Horfum til þeirra vinnuhópa sem hafa verið að vinna núna í kringum þessa nýju ríkisstjórn. Það væri gaman ef hv. þingmaður skrifaði einhvern tíma á blað fyrir okkur alla þá stjórnarandstæðinga sem þar hafa verið. Eða hversu margir bankar hafa til dæmis komið að ráðgjöfinni við hæstv. ríkisstjórn. Ætli það sé meira en einn?

Það er sá drullupollur sem búið er að búa til sem vekur mér ugg, ekki vegna þess að við séum endilega öll dottin ofan í hann, en ætlum við virkilega að láta það vera baðið okkar? Og ætla nýju þingmennirnir bara að ganga að þessu, fara aftur hringinn, byrja upp á nýtt vegna þess að þeir eru ekki með reynslu frá þessum tíma? Þetta eru viðvörunarorð frá mér. Þetta er ekki vegna þess að ég geti fullyrt að þetta verði svona og mín einlæga ósk er að það verði ekki svona. En þetta er hvatning (Forseti hringir.) til að berjast gegn því og við eigum að skapa traust með því að búa til miklu betri reglur og umgjörð en hér eru settar fram.