144. löggjafarþing — 103. fundur,  11. maí 2015.

aðkoma ríkisins að lausn vinnudeilna.

[15:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, við í Samfylkingunni, og ég held ég geti talað fyrir alla stjórnarandstöðuna, erum tilbúin til þess að koma í þetta verkefni með ríkisstjórninni, en mér finnst þá þurfa eitthvert annað innlegg frá ríkisstjórninni en lýsingu eins og þá sem hæstv. ráðherra gaf hér á málinu eins og áhorfandi. Hann er auðvitað þátttakandi í að leysa það. Ef hann hefur áhyggjur af því að verkalýðshreyfingin og samtök launamanna komi sundruð til kjarasamningsgerðar er það í hans valdi að leggja á borðið tillögur sem geta dregið alla að borðinu. Þær liggja í þeim málaflokkum sem ég rakti áðan og sérstaklega í húsnæðismálunum. Það er engin ný sannindi. Við höfum rætt þetta hér árum saman. Það þarf grundvallarbreytingar, sérstaklega í húsnæðismálunum. Þær munu kosta peninga. Og hæstv. fjármálaráðherra hefur þetta núna í hendi sér.

Ég ítreka hvatningarorðin til hans. Það mun ekki standa á stjórnarandstöðunni í því að koma skynsamlegum lausnum á framfæri. Það eina sem ég hef áhyggjur af (Forseti hringir.) er að ríkisstjórnin hafi ekki burði til að koma málunum þannig áfram að það geti greitt (Forseti hringir.) fyrir úrlausn á vinnumarkaði.