144. löggjafarþing — 103. fundur,  11. maí 2015.

langtímastefnumótun um sátt á vinnumarkaði.

[15:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég man ekki betur en við höfum setið saman, ég og hv. þingmaður, á fundi, á samráðsvettvangi um aukna hagsæld, þar sem þessi mál voru sérstaklega á dagskrá. Ég man ekki betur en við höfum setið þar hlið við hlið. Þar var í tvo tíma farið yfir það hvernig við gætum breytt áherslum og uppbyggingu vinnumarkaðarins til þess að ná betri langtímasýn og breyttum áherslum.

Mín skoðun er sú að við séum komin að ákveðnum endimörkum með þetta fyrirkomulag. Við þurfum að fara að byggja á meiri rammasamningagerð og launþegamegin þurfa menn að vera tilbúnir til þess að veita forustunni skýrara umboð en ekki koma sundraðir að samningaborðinu.

Í því felst meðal annars að menn séu tilbúnir til að horfa til lengri tíma í efnahagsmálum, svo sem með því að mynda efnahagsráð og komast sameiginlega að niðurstöðu um það hvaða svigrúm er til staðar í hagkerfinu til þess, við næstu kjarasamningagerð, að fara í launahækkanir. Hvaða svigrúm er raunverulega til staðar? Hvað getum við gert til þess að ýta undir með þeim störfum í landinu þar sem framleiðni er meiri og að sem flestir geti fengið störf þar? Hvaða áherslur þurfa að eiga sér stað í menntamálum til að fleiri útskrifist fyrir atvinnugreinar sem þurfa á því fólki að halda o.s.frv.? Þetta erum við allt að ræða. Við sátum saman, ég og hv. þingmaður, einmitt að ræða þetta og það er ekki langt síðan.

Oft er nefnt, sem sérstök rót ósættisins í dag, að ríkisstjórnin hafi verið að gera ráðstafanir í tekjumálum ríkisins sem skapi ósætti, að menn hafi verið að varpa fyrir róða alls konar tekjustofnum. Þá ætla ég að benda á þetta. Ríkisstjórnin tekur núna 38 milljarða af slitabúum og bönkum í skatt sem áður skilaði 1 milljarði í skatt. Þetta hefur gert okkur kleift annars vega að ljúka skuldaaðgerðunum og loka fjárlagagatinu. Aðrir skattar sem hafa lækkað hafa fyrst og fremst verið lækkaðir á fólkinu í landinu, ýmist fólki sem var í lægri tekjuþrepunum eða í millitekjuþrepinu, auðlegðarskatturinn er oft nefndur til sögunnar, en hann voru líka margir að greiða sem voru ekki með neinar ofurtekjur, enda var hann ekki miðaður (Forseti hringir.) við tekjur heldur eignastöðu. Heildaraðgerðir (Forseti hringir.) ríkisins í tekjuskattsmálum, í skattamálum, (Forseti hringir.) hafa orðið til þess að auka skatttekjur ríkisins. Það hefur engum sköttum verið kastað fyrir róða.