144. löggjafarþing — 103. fundur,  11. maí 2015.

tollar og matvæli.

727. mál
[15:50]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég held að þetta sé í fjórða eða fimmta skipti sem ég er í þessu ræðupúlti að ræða nákvæmlega þetta mál við hæstv. ráðherra, þ.e. útboð á tollkvótum. Og ég er í rauninni engu nær. Mér heyrist á hæstv. ráðherra að það að varpa hlutkesti sé einhvern veginn ekki góð leið og hann vilji umfram allt fá þessar 300–400 milljónir í ríkiskassann, en ef þær koma ekki í ríkiskassann þá spara neytendur sér í rauninni þá upphæð, þannig að mér finnst þetta kannski ekki góð rök.

Við höfum einnig rætt það hér að hagsmunaaðilar komi sér ekki saman um það hvaða leið sé fær, og þá spyr ég: Hafa þessir hagsmunaaðilar allir hist í einu og sama herberginu með hæstv. ráðherra og rætt málin? Ég er næstum því viss um að svo er ekki. Ég held að það sé alveg hægt að finna lausn á þessu, t.d. leið þar sem hluti kvótans fer kannski eftir stærð fyrirtækjanna og restinni deilt út með hlutkesti eða (Forseti hringir.) … finna einhverja leið í þessu máli.