144. löggjafarþing — 103. fundur,  11. maí 2015.

intersex.

731. mál
[16:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka ráðherra svörin og sömuleiðis fyrir þá góðu umræðu sem hv. þingmenn hafa tekið þátt í. Ég verð þó að segja að svörin frá ráðherra eru ekki nægjanleg, alls ekki. Hann hefur útskýrt eitthvert ákveðið ferli sem greinilega fer í gang á Landspítalanum þegar þessi staða kemur upp, en ferlið er alls ekki augljóst og það er alls ekki ásættanleg niðurstaða að í einhverjum tilfellum, og kannski í flestum tilfellum, séu börn lögð undir hnífinn án þess að vera spurð. Það er ekki hægt að ráðast gegn sjálfræði einstaklinga á grófari hátt en að leggja ómálga barn undir hnífinn.

Rannsóknir sýna að fólk sem gengist hefur undir kynleiðréttingu, eins og það kallast svo óheppilega, líður fyrir það. Margir líða fyrir það alla ævi og það tekur kannski hálfa ævina að leiðrétta þau mistök eða reyna að leiðrétta þau mistök sem hafa verið gerð. Það er algjörlega óásættanlegt að grípa svona inn í líf fólks án þess einu sinni að bera það undir það. Það er ekki hægt nú á þessum tímum, það gengur ekki upp.

Það er ekki vitað um fóstureyðingar en þó kom fram í svörum ráðherra að fjögur börn hefðu fengið meðferð, eins og hann kallaði það, á síðastliðnum tíu árum. Ég tel að við þurfum að færa í lög, (Forseti hringir.) og tek undir það sem aðrir þingmenn hafa sagt, að við getum ekki gripið svona inn í líf fólks. Það á að vera algjörlega bannað.