144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[16:34]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ef samstaðan um löggjöfina um rammaáætlun er sögufölsun þá hefur það verið ansi stórt samsæri og þá á sér líka stað ákveðin skjalafölsun í þingtíðindum og víðar, vegna þess að það hefur farið fram hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að þessi löggjöf var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Öllum, löggjöfin sjálf. Þannig að skapalónið (Gripið fram í.) sem við smíðuðum utan um það með hvaða hætti ætti að fara með þetta verkefni var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum í þingsal. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Það sem menn eru að fara að gera hér er að halda áfram á þeirri braut þar sem var ófriður um hverja einustu framkvæmd. Þeir sem eru fylgjandi því að virkja sem mest ættu líka að hugsa sig tvisvar um hvað það þýðir þegar ófriður er um hverja einustu framkvæmd. Það þýðir að öllum verkfærum er beitt til þess að tefja (Forseti hringir.) mál. Það er einfaldlega þannig. Þess vegna lögðum við af stað í þennan leiðangur að reyna þó (Forseti hringir.) að ná saman um þær framkvæmdir sem hægt væri að ráðast í þannig að þær gætu gengið vel fram.