144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það líður nú að lokum þessarar umræðu sem hefur verið allnokkur, enda full ástæða til. Um hvað snýst málið? Fjárfestingarbankastarfsemi og stjórnmál eru eitruð blanda. Fjárfestingarbankastarfsemi og stjórnmál eru uppspretta spillingar. Samspil fjárfestingarbankastarfsemi og stjórnmála hefur æ ofan í æ kostað skattgreiðendur gríðarlegar fjárhæðir. Samspil stjórnmála og fjárfestingarbankastarfsemi leiddi til þjóðargjaldþrots á Íslandi. Það er því full ástæða að fara mjög varlega þegar hreyft er við löggjöf á þessu sviði. Þá er brýnt að staðið sé faglega að málum og mikilvægt að leitast við að ná sátt og samstöðu sem víðast svo að einhugur geti verið um þá hluti sem gera þarf í því sambandi.

Er ástæða fyrir okkur Íslendinga til að gera sérstakar tilraunir í samspili stjórnmála og fjárfestingarbankastarfsemi? Ég held að svarið við þeirri spurningu sé býsna augljóst, nei. Við höfum vítin til að varast umfram aðrar þjóðir. Staðreyndin er sú að allar þjóðir Vestur-Evrópu sem hafa þurft að fara með eignarhluti í fjármálafyrirtækjum hafa haft bankasýslu á milli stjórnmálanna og þeirra eignarhluta, eins og hér er. Ástæðan fyrir því er sú sama og ég rakti hér í upphafi að ekki bara Íslendingar heldur þjóðir um allan heim hafa af því bitra reynslu að samspil stjórnmála og fjárfestingarbankastarfsemi sé banvæn blanda. Það getur haft gríðarlega alvarlegar afleiðingar að halda stjórnmálunum ekki víðs fjarri frá fjárfestingarbankastarfsemi.

Er ástæða fyrir okkur Íslendinga til að hafa minni skilrúm á milli stjórnmálanna og fjárfestingarbankastarfsemi í landinu en aðrar þjóðir? Nei, sannarlega ekki. Það er þvert á móti kannski ástæða til að velta því fyrir sér hvort við þyrftum að ganga lengra og hafa enn meiri armslengd en er í Bankasýslunni fólgin en aðrar þjóðir. Ástæðan fyrir því er sú að við þurfum líka að horfast í augu við það að við erum fámenn þjóð, 0,3 milljónir manna, og hér er nánd, kunningsskapur, vinskapur og frændsemi, sjálfstæð uppspretta spillingar og því sérstök ástæða til að varast og vinna gegn með armslengdarhlutum eins og Bankasýslunni með kröfum um mesta mögulega gegnsæi.

Hvað er verið að gera hér? Hér er náttúrlega bara verið að gera tillögu um að leggja niður það sem stendur í milli ráðuneytisins og eignarhlutanna í bönkunum, þ.e. Bankasýsluna, og skipa í staðinn einhvers konar einkavæðingarnefnd ráðherrans.

Það hefur verið fært fram sem rök í málinu að það séu ekki nema rúmlega tvö stöðugildi sem um er að ræða. Ég held að ég hafi aldrei heyrt betri rök fyrir því að halda áfram rekstri þessarar stofnunar, Bankasýslunnar, en einmitt þau. Það er sannarlega vel að verki staðið að byggja ekki meira bákn um það en svo að þurfa ekki nema tvo starfsmenn eða liðlega það til að sýsla með svo gríðarlega hagsmuni og stóra eignarhluti, og hafa gert það með þeim hætti að skattgreiðendur hafa nú þegar endurheimt 40%, hátt í helminginn af því sem þeir þurftu að kosta til við endurreisn bankanna í framlagningu.

Það hafa einnig verið færð rök fyrir því að leggja ætti af þetta fyrirkomulag af því að það hefði ekki verið nýtt til meðferðar á öllum eignarhlutum alltaf. Ég fæ ekki séð hvernig þau rök halda. Það kann vel að vera að Bankasýslan hefði átt að gegna veigameira hlutverki en hún hefur gert, hefði átt að taka til enn fleiri verkefna en hún hefur þó gert. En það eru ekki rök gegn því að hún haldi áfram að vera til. Það hljóta þvert á móti að vera rök fyrir því að hún eigi að fá stærri og meiri verkefni. Það eru kannski það skrýtnasta við að velja þennan tímapunkt til að leggja hana niður að það mátti til sanns vegar færa þegar sumir þingmenn vildu halda því fram að Bankasýslan væri í raun og veru Landsbankasýsla, þ.e. það væri sá hægur á því að hafa um þetta sérstaka stofnun að hún fjallaði fyrst og fremst um eignarhluta í einu fjármálafyrirtæki. En hvað er nú að gerast? Nú er verið að semja við slitastjórnir föllnu bankanna um það með hvaða hætti sé hægt að leysa úr þrotabúunum og losna úr gjaldeyrishöftum. Öll vitum við að lykilþáttur í þeim samningum sem ríkisvaldið kemur óhjákvæmilega að og hefur loksins viðurkennt að það þurfi að standa í eru viðræður um það hvernig skuli fara með óvirkan eignarhluta búanna í Arion banka og Íslandsbanka sem gefur ástæðu til að ætla að það kynnu jafnvel að vera enn víðtækari verkefni fyrir Bankasýsluna að sinna á næstu mánuðum og missirum en hafa verið undanfarin ár og það sé þess vegna enn ríkari ástæða núna að halda í Bankasýsluna, styrkja hana og efla. Við verðum að bera gæfu til að standa faglega að sölu eignarhluta í viðskiptabönkunum. Við þurfum að bera gæfu til að halda pólitískum klóm eins langt frá því ferli og mögulegt er, tryggja jafnræði, aðkomu allra og sem faglegust vinnubrögð við það. Það er þess vegna í hæsta máta óskynsamlegt að kasta á glæ þeirri stofnun sem hefur verið að safna reynslu og þekkingu á þessu verkefni í hartnær sex ár og skilað jafn góðum árangri og raun ber vitni.