144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmanni líður ekki vel þegar ég spyr hann um þessi mál eins og kemur fram í orðfæri hans og ég ætla ekki að hafa það eftir. En það kemur að vísu fram um hlutverk Bankasýslunnar að hún á að gera tillögur til fjármálaráðherra um frekari fjármögnun fjármálafyrirtækja á grundvelli hlutverks og markmiða stofnunarinnar. Og það var nú hvorki meira né minna en stofnaður sérstakur banki á grundvelli Sparisjóðs Keflavíkur.

Það kemur líka fram að það komu tillögur frá Bankasýslunni, við fengum þær í nefndinni, um hvernig ætti að haga sér í sparisjóðakerfinu og það var ekki farið eftir þeim. Það kemur líka fram í ársskýrslu Bankasýslunnar að þar töldu menn sig vera að taka við SpKef og Byr. Það var ekki gert. Menn ákváðu það og það var ekki viðskiptaráðherra sem hélt utan um þetta, fjármálaráðherra hélt utan um þetta í mjög langan tíma. Það voru brotin lög um eiginfjárhlutföll, alveg sama hvort Bankasýslan var þarna eða ekki. (Forseti hringir.) Því miður er það nú svo að það fólk sem vann þessi ágætu störf er ekki lengur í Bankasýslunni.