144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:36]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum rætt hér um frumvarp til laga um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Við gildistöku þessara laga 1. janúar, ef frumvarpið verður samþykkt, þá um leið eins og kemur fram í 13. gr. frumvarpsins munu falla úr gildi lög um Bankasýslu ríkisins, nr. 88/2009, og lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, nr. 155/2012. Það eru því tvenn lög undir í þessu frumvarpi.

Hér hefur mikið verið fjallað um armslengdina. Það er auðvitað annað meginatriðið í frumvarpinu. Ég veit að hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni sem mælti hér síðast í ræðu er mjög umhugað um opna og gagnsæja stjórnsýslu. Hann ræddi hér meðal annars um armslengdina og líka þekkinguna sem er til staðar í Bankasýslunni. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að það megi ekki tryggja að sú þekking verði í ráðuneyti eða ráðgjafarnefnd.

Mig langar í fyrra andsvari að víkja að 4. gr. frumvarpsins, um ráðgjafarnefndina, hvort hv. þingmaður telji ekki að fyrirkomulagið um það hvernig nefndin eigi að starfa sé nægilega gott, að gefnu því að mögulega megi breyta því fyrirkomulagi sem er kveðið á um í frumvarpinu um skipan nefndarinnar og hvar hún yrði staðsett.