144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:42]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst að ríkið eigi alls ekki að eiga banka eða fjármálastofnanir því menn geta lent í því að hagsmunir stangist á. Til dæmis hagsmunir ríkisins vegna Íbúðalánasjóðs, þar sem ríkið ábyrgist skuldirnar eru það hagsmunir þess að Íbúðalánasjóður standi sig vel, en á sama tíma ættu það að vera hagsmunir ríkisins, alla vega á málefnasviði ráðherra, að tryggja réttarstöðu lántakenda. Þarna erum við með hagsmuni sem stangast á. Þá þarf ríkisstjórnin að spyrja sig hvaða hagsmunir eigi að ráða. Við höfum séð að hagsmunagæsla eða réttargæsla fyrir lántakendur hefur ekki verið nógu góð, ég hef mörgum sinnum bent á það á Alþingi, þannig að ríkið á alls ekki að eiga fjármálastofnanir. Mér finnst að það eigi að selja þær, en varðandi söluferlið og ákvarðanatökuferlið þá þarf að vera mikil valddreifing að mér finnst í því ferli. Mér sýnist gegnsæi vera nokkuð vel tryggt í frumvarpinu. Hv. þingmaður nefnir eitt í frumvarpinu sem er að nefndum Alþingis skuli veittur hæfilegur frestur til þess að gera athugasemdir við efni greinarinnar. En hvað kemur síðan strax í setningunni þar á eftir? Með leyfi forseta:

„Að liðnum fresti samkvæmt 4. mgr. skal ráðherra taka ákvörðun um hvort sölumeðferð eignarhlutarins verði hafin í samræmi við efni greinargerðarinnar. Ráðherra getur í ákvörðun sinni gert breytingar á einstökum þáttum í fyrirhugaðri sölumeðferð …“

Ráðherra ræður. Mér hefur sýnst það að ef Bjarni ræður, þá ræður Bjarni. Ég held að það sé bara svolítið hans stjórnunarstíll. Ég er ekkert viss um að ég treysti einum manni, sama hver hann er, til þess að fara algjörlega einn með það og geta einn ráðið. Jú, hann þarf að spyrja kóng og prest, en ræður einn hvernig fara skuli með sölu og eignarhluti ríkisins í bönkunum sem nema upphæð sem væri hægt að nota til þess að kaupa þrjá nýja Landspítala.