144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Maður verður sífellt meira undrandi yfir vinnubrögðum hér á Alþingi. Ég hefði nú haldið að hæstv. forseti væri vandaðri en svo að kynna þetta álit hér í upphafi umræðunnar, þennan úrskurð sinn sem byggður er á lögfræðiáliti, að vera ekki búinn að kynna hann áður og gefa þingmönnum í stjórnarandstöðunni kost á því að láta skoða þetta álit til að eiga þá einhverja rökræðu um hvort úrskurðurinn standist einhverja skoðun. Eins og komið hefur fram byggir hann á mjög veikum grunni og er vísað til þess að þeir kostir sem þarna er bætt við séu búnir að fá faglega meðferð. Er þetta bara til að misbjóða fólki? Mér er bara svo misboðið að ég er orðlaus, sem ég verð ekki oft, en þetta misbýður mér algjörlega.

Ég hefði haldið að hæstv. forseti væri vandaðri að virðingu sinni en svo að bjóða þinginu upp á svona vinnubrögð.