144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:42]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Svar hv. þingmanns var að hann teldi meiri hluta nefndarinnar vera til þess bæran að taka ákvörðun sem verkefnisstjórn taldi sig ekki bæra til að taka af því faghópar hefðu ekki verið fullskipaðir. Hugsunin á bak við verkefnisstjórn rammaáætlunar er að meta öll áhrif; umhverfisáhrif, samfélagsleg áhrif, efnahagsleg áhrif, og raða svo kostum í röð eftir því hvort þeir eigi að fara í vernd, bið eða nýtingu. Mér finnst hv. þingmaður í raun og veru vera að segja að þetta ferli skipti engu máli, að hann ásamt Ásmundi Friðrikssyni, Páli Jóhanni Pálssyni, Þórunni Egilsdóttur, Haraldi Benediktssyni og Þorsteini Sæmundssyni, meiri hluta atvinnuveganefndar, geti bara tekið þetta að sér. Er hv. þingmaður að segja að verkefnisstjórn um rammaáætlun sé í raun og veru óþörf? Það kemur fram í öllum gögnum að hún var aldrei búin að ljúka umfjöllun um Hagavatnsvirkjun. Það er nú eitt af því sem menn efast um að hreinlega standist lög. Telur þá hv. þingmaður nokkurn tilgang (Forseti hringir.) með því að verkefnisstjórn haldi áfram sinni vinnu?