144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:44]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér hefur verið talað um að þessum degi hafi verið varið til einskis. En ég vil spyrja forseta hvort það hafi komið forseta á óvart að tekið væri illa í þær tillögur sem hér eru fram lagðar. Nei, ég held að það geti varla verið að hæstv. forseti sé svo skyni skroppinn að hann hafi haldið að hér yrði ekki uppi fótur og fit og það yrði ekki mikill fögnuður yfir þessum breytingartillögum frá meiri hluta atvinnuveganefndar. En þetta er hins vegar greinilega forgangsmál hæstv. ríkisstjórnar. Það er áherslumál stjórnarmeirihlutans að halda þinginu uppteknu við að tala um breytingartillögur við þingsályktunartillögu hæstv. umhverfisráðherra, sem ég hlakka reyndar til að heyra í á eftir. En þetta er forgangsmál og menn vissu nákvæmlega hvað þeir voru að gera þegar þeir settu það á dagskrá.