144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:35]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er að reyna að endurtaka það hér að ég hefði eflaust gert það sama og forveri minn í haust, að taka mið af því sem verkefnisstjórnin lagði til af því að hún var ekki alveg búin að klára þá vinnu sem henni hafði verið falin en var, eins og sagt var, hársbreidd frá því að senda alla þrjá kostina áfram. Mér fannst það ásættanlegt vegna þess að fyrri verkefnisstjórn um rammaáætlun sem starfaði á síðasta kjörtímabili var búin að setja þá kosti áfram í nýtingu. Hefur þá ekki sú verkefnisstjórn sama gildi? Þess vegna fannst mér nokkuð sérstakt að verkefnisstjórnin sem tók við hefði ekki á einu ári getað fullvissað sig um að halda sig við sömu kostina.