144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

dagskrá þingsins.

[15:25]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég gagnrýni að þetta arfavitlausa mál, sem ég vil kalla svo, úr atvinnuveganefnd sé enn á dagskrá. Það er ekki eins og við höfum allan heimsins tíma fram undan, það eru um átta virkir dagar eftir af þinginu. Það er furðulegt að við þingmenn eigum að tala um þetta mál það sem eftir er þingsins, virðist vera, og að það sé enginn áhugi hjá ríkisstjórninni á að koma neinum öðrum brýnni málum á dagskrá. Þetta mál mun aldrei nást í gegn. Er þetta bara eitthvert uppfyllingarefni af því að stjórnarflokkarnir koma sér ekki saman um hin brýnu mál sem knýja á dyrnar hjá almenningi í landinu? Er það þannig? Það er ekki eins og menn séu einu sinni sammála um þetta mál, en þessu virðist vera hent inn í þingið til að skapa einhvern tíma til að menn nái sáttum í öðrum málum sem brenna á. (Forseti hringir.) Þurfum við ekki að fara að losa okkur við þessa ólánsríkisstjórn?