144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

dagskrá þingsins.

[15:44]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hverju sætir að hv. þm. Jón Gunnarsson sleppti mér í upptalningu þeirra sem ásökuðu hann um kvenfyrirlitningu því að það er akkúrat það sem ég gerði. Þegar menn þurfa að grípa til varna í umræðu í þinginu og nota orð eins og að einstaka ráðherrar skipti ekki máli og vera þá að ræða um hæstv. umhverfisráðherra — getur maður eiginlega talað meira niður til einhvers? Ég verð að viðurkenna að mér datt fyrst í hug að það væri eingöngu vegna þess að kona gegndi þessu embætti. Kannski hefði átt að kalla þetta ráðherrafyrirlitningu. Ég hef ekki séð að hv. þingmaður noti þetta um þá sem kannski ættu helst að verða fyrir því, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra.

Við erum að tala um mál sem þarf að koma af dagskrá til að við getum leitað lausna á ýmsum öðrum málum en líka til þess að finna einhvern farveg fyrir þetta mál. Það verður í átakafarvegi ef menn ætla (Forseti hringir.) að beita endalaust hnefanum til að koma málum hér áfram.