144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

störf þingsins.

[16:24]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég gat eiginlega ekki orða bundist áðan þegar hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir kom hingað upp og sagði í lok ræðu sinnar að nú ætlaði hún að verða pírataleg og lagði svo til að verðtrygging neytendalána yrði afnumin. Það er stefnumál Framsóknarflokksins, stefnumál þess flokks sem nú situr í forsætiráðuneytinu, húsnæðismálaráðuneytinu og víðar. Án þess að ég ætli að gera pírötum upp skoðanir eða leggja þeim orð í munn held ég að ástæðan fyrir því að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kemur hingað upp með endurtekningar sínar sé einmitt sú að hann hefur ekki fengið áheyrn með áherslur sínar. Það er mjög sérkennilegt þegar þingmaður flokks sem á fulltrúann í forsætisráðneytinu og hæstv. forsætisráðherra sér að ekkert verður af áformum um afnám verðtryggingar og kemur því hingað upp eins og Kató gamli, í trú á mátt endurtekningarinnar, og þylur upp til að reyna að fá áheyrn að afnema þurfi verðtryggingu á neytendalánum. Það segir okkur bara nákvæmlega í hvaða stöðu ríkisstjórnin er og í hvaða stöðu málið um afnám verðtryggingar er.

Muna menn eins og ég þegar núverandi félags- og húsnæðismálaráðherra sagði okkur ítrekað í þessum þingsal í aðdraganda síðustu kosninga að viljinn væri allt sem þyrfti? Ef viljinn er allt sem þarf segir það mér núna, tveimur árum eftir að þessi sami flokkur komst til valda og hefur ekki klárað þetta mál, að hann hafi ekki viljann til að gera það, hann hafi ekki viljann til að ljúka málinu, ef marka má orð núverandi hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra. Mér þykir þetta endurspegla dálítið stöðuna sem ríkisstjórnin er í, sem hv. þm. Róbert Marshall lýsti áðan. Það veit enginn hvað (Forseti hringir.) aðrir eru að gera, menn hafa ekki hugmynd hvert verið er að fara og þingmenn eru farnir að þurfa að koma hingað upp með gjörninga til að fá áheyrn forustumanna sinna.