144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

um fundarstjórn.

[16:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Haldin var ræða áðan undir liðnum um störf þingsins af hv. 7. þm. Suðurk., Ásmundi Friðrikssyni, þar sem hann sagði að hér færi fram málþóf.

Mig langar að benda hv. þingmanni á, eins og ég hef bent hv. 2. þm. Reykv. s. á, að hér hafa verið miklar deilur í gær og í dag um hvernig haldið er utan um fundi Alþingis. Þær deilur eru öllum ljósar og það væri ein mjög einföld leið til að binda endi á þessar kvartanir að taka málið af dagskrá og fara að ræða mál sem þingið vill í meginatriðum ræða. Slík mál eru til.

Nú eru örfáir dagar eftir af þinginu og í staðinn fyrir að einbeita okkur að þeim málum, og auðvitað kjaradeilunum sem eru yfirþyrmandi og munu verða áfram nema eitthvað mikið gerist, erum við að ræða rammaáætlun. Það er ekki í lagi.

Ástæðan fyrir því að við komum aftur og aftur upp í pontu til að kvarta undan því er sú að það er ekki lagað, þetta er vandamál. (Forseti hringir.) Hvað eigum við að gera, virðulegi forseti? Eigum við bara að þegja? Eigum við að vera þæg í sætunum okkar þegar dagskrártilhögun þingfundar er algjörlega úti á túni?