144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

umræðuefni dagsins.

[16:31]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Undir þessum lið í gærkvöldi kom hv. þm. Páll Jóhann Pálsson upp og var nokkuð ánægður með sjálfan sig og stoltur yfir því, brimandi af stolti raunar, að hafa fundið klásúlu þar sem fjallað var um Hagavatn og að sú virkjun hefði fengið hæstu einkunn í umfjöllun verkefnisstjórnar. Þegar menn fóru að skoða nánar hvað hv. þingmaður átti við kom í ljós að honum hafði tekist að finna umfjöllun eins af faghópum verkefnisstjórnar og greinilega misskilið allt málið.

Það er engin furða að menn reki í rogastans hérna þegar komið er með þær breytingartillögur sem hafa verið til umfjöllunar þegar þær eru byggðar á jafn mikilli vanþekkingu á lögum um rammaáætlun og raun ber vitni. Það gefur okkur tilefni til að fara mjög vandlega yfir málið allt hér í þessari umræðu. Það sýnir að þetta er mjög vanbúið. Þetta er alvarlegt vegna þess að það felur í sér varanlega (Forseti hringir.) breytingu á náttúru Íslands, á mjög mörgum dýrmætum stöðum.