144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er reyndar sammála hv. þingmanni um að þetta er í sjálfu sér skýrt þegar kemur að lögunum en svo gerist það að hagsmunir einhverra fá að ráða og þá virðist það geta þjakað gjörvallt Alþingi, nema auðvitað að það verklag sem hér hefur verið viðhaft í dag og í gær sé hluti af einhverri epískri meðvirkni með hv. formanni hv. atvinnuveganefndar. En ég á alltaf svolítið bágt með að trúa því að menn fari út í allt þetta einvörðungu út af meðvirkninni, mér finnst meira hljóta að liggja að baki. Þá verðum við að spyrja: Hverjir eiga að taka ákvörðunina? Ég er sammála hv. þingmanni að það hlýtur að vera þjóðin.

Hvernig getum við haft þetta ferli þannig að það sé lýðræðislegra? Ég held að umræðan úti í samfélaginu (Forseti hringir.) yrði miklu betri en umræðan hér. Hér erum við föst í forminu vegna þess hvernig við meðhöndlum það en ekki í efnisatriðum málsins. (Forseti hringir.) Ég velti því fyrir mér hvernig við lögum það.