144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:44]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þingmaðurinn fór í ræðu sinni og raunar fyrr í umræðunni yfir vanþekkingu meiri hluta atvinnuveganefndar og þá staðreynd sem við stöndum frammi fyrir að þurfa í raun og veru að fara ofan í saumana á forsendum þeirrar tillögu sem lögð er fram, vegna þess að í hverju málinu á fætur öðru blasir við að það byggir á vanþekkingu bæði á lögum um rammaáætlun og á einstökum þáttum röksemdafærslunnar og á þeim ramma sem löggjöfinni og ferlinu eru sniðin.

Þegar þessi vanþekking, þessi yfirgripsmikla vanþekking sem ég leyfi mér að kalla svo, tvinnast svo saman við íslenska frekjupólitík af hæstu gráðu þá erum við komin með mótor undir hina íslensku stóriðjustefnu sem hefur verið við lýði einmitt allt frá árinu 1972 hið minnsta. (Forseti hringir.) Og ég vil biðja hv. þingmann um að reifa aðeins þá hættu þegar þetta kemur saman, vanþekking og frekja.