144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[10:43]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Á síðasta kjörtímabili samþykktum við þingsályktun í kjölfar þess að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var felldur áfellisdómur yfir vinnubrögðum í íslenskum stjórnmálum og íslenskri stjórnmálamenningu. Eitt af því sem þar var nefnt og reifað mjög ítarlega var sú tilhneiging íslenskra stjórnmálamanna að taka ekki mark á fagmönnum og fræðimönnum þegar þeir koma fram með réttmætar viðvaranir og réttmæt álit. Við samþykktum þá tillögu, að við ætluðum að bæta íslenska stjórnmálamenningu, 63:0. Nú eru sex hv. þingmenn, Jón Gunnarsson, Haraldur Benediktsson, Ásmundur Friðriksson, Páll Jóhann Pálsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir, sem skrifa undir nefndarálit þar sem þau segja að þau telji ekki ástæðu til að bíða eftir áliti fagmanna í verkefnisstjórn rammaáætlunar. Þau telja sig þess bær að taka ákvarðanir án þess að verkefnisstjórn hafi lokið (Forseti hringir.) lögbundnu hlutverki sínu (Forseti hringir.) því að þau telja sig betur til þess fallin en fagmennina.