144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[11:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp í tilefni af orðum hv. þm. Páls Jóhanns Pálssonar. Hann virtist vera að gagnrýna það að við værum hér að kvarta. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, vissulega erum við að kvarta, til þess er þessi dagskrárliður, hann er hugsaður til þess að kvarta. Sömuleiðis talaði hv. þingmaður um dómara. Nú vil ég alls ekki lasta virðulegan forseta því hann er ágætur forseti að mörgu leyti, en í þessu tilfelli er rétt að minna okkur öll á það undir hvaða kringumstæðum við störfum. Við störfum við kringumstæður þar sem virðulegur forseti er fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, þar sem virðulegur forseti er einnig hv. 2. þm. Norðvest. fyrir Sjálfstæðisflokkinn og þar sem virðulegur forseti var meðflutningsmaður á breytingartillögum 13. desember 2012 þar sem lagt var til að virkja Urriðafoss, Hvammsvirkjun, Holtavirkjun, Skrokkölduvirkjun og Hágönguvirkjun. Þannig að þegar talað er um dómara þá skulum við minna okkur á hvernig það á að vera í fótbolta eða í réttarsal. Þar á dómarinn að vera óháður. Við búum ekki við slíkt í þessum þingsal, virðulegi forseti. Það er einfaldlega ekki þannig að hér sé dómari sem geti útskýrt fyrir okkur með hlutlausum hætti (Forseti hringir.) hvernig hlutirnir eiga að vera. Þess vegna er það bara nákvæmlega rétt af okkur og eina úrræðið sem við höfum (Forseti hringir.) að kvarta. Ég spyr hv. þingmann: Eigum við ekki einu sinni (Forseti hringir.) að gera það? Eigum við að leggjast niður kylliflöt og gleyma því til hvers við mættum hingað á þetta þing?