144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

breytingartillaga við rammaáætlun.

[11:29]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Það er sem sagt búið að gera samkomulag um að breyta breytingartillögunni sem við áttum að ræða hér í allan dag. Hvenær átti að segja okkur þetta? (Gripið fram í.) Hvenær ætlaði hæstv. forseti að segja okkur þetta? (Gripið fram í.) Hvar eru þessar ákvarðanir teknar? Hvað erum við að ræða hérna í þingsalnum? Þetta er bara orðinn farsi.

Ég bað ekki um faglegt mat eða mat hæstv. forsætisráðherra á þeim kostum sem hér eru til umræðu. Deilt er um hvort það sé leyfilegt að ákveða hér í þingsal að virkjunarkostir fari í nýtingarflokk þegar verkefnisstjórn um rammaáætlun hefur ekki lokið vinnu sinni. Og það er þess vegna sem hæstv. þáverandi umhverfisráðherra og núverandi umhverfisráðherra lögðu bara fram tillögu um einn virkjunarkost, Hvammsvirkjun. Það er eina virkjunin sem verkefnisstjórnin hefur lokið við að fjalla um. Er hæstv. forsætisráðherra þeirrar skoðunar, og er þar með á skjön við sinn eigin ráðherra (Forseti hringir.) í sinni eigin ríkisstjórn, að það sé í lagi að ákveða hér að setja virkjanir í nýtingarflokk (Forseti hringir.) þrátt fyrir að verkefnisstjórn hafi ekki lokið umfjöllun um þær? Telur hann að það sé í lagi?