144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

rammaáætlun.

[11:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ástæða er til þess á þessum fallega vordegi að fagna því að hæstv. forsætisráðherra sé runninn á rassinn með nauðungarflutninga á starfsfólki Fiskistofu. Um leið og við fögnum þeim fullnaðarsigri starfsfólksins er þetta hins vegar ákaflega gott dæmi um stjórnunarstíl forsætisráðherra. Hann fer fram með fautaskap og ofbeldi gagnvart fólki sem stendur vikum og mánuðum saman og þegar til á að taka reynist það vera algerlega óþarft og augljós einföld lausn sem mætt getur öllum sjónarmiðum og það þurfti ekki allt þetta stríð.

Nú virðist enn einn slíkur leiðangur í uppsiglingu með því að þinghaldið er sett hér á hliðina dag eftir dag. Forsætisráðherra eða ríkisstjórn hans hefur í tvígang lagt fram stjórnarfrumvarp sem forsætisráðherra stendur að um Hvammsvirkjun, setja hana í nýtingarflokk. Hér er breið samstaða í þinginu um stjórnarfrumvarpið og meðhöndlun þess í þinginu. Hér er meira að segja stuðningur frá fjölmörgum stjórnarandstöðuþingmönnum við það að ráðast í þá tilteknu virkjun. En, nei, þá er spillt fyrir því að tillaga ríkisstjórnarinnar sjálfrar nái fram að ganga með einhverju ofbeldi um algerlega ótímabæra hluti sem síðan er bara fallið frá, núna fyrsta kostinum, eftir þrjá daga, algerlega óþarft stríð um virkjunarmál, augljóslega. Ég hlýt að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Getum við ekki fengið að fjalla um tillögu ríkisstjórnarinnar sem hún hefur flutt í tvígang um að ráðist verði í Hvammsvirkjun? Getur ekki ríkisstjórnin staðið með sinni eigin tillögu? Megum við sem styðjum þá tillögu ríkisstjórnarinnar ekki fá að styðja hana hér í þinginu? Þarf virkilega að spilla því með þessum furðulega tillöguflutningi úr meiri hluta atvinnuveganefndar? Það er ekki bara Hagavatnsvirkjunin sem hæstv. umhverfisráðherra hefur sagt að standist ekki lögin, það er líka Skrokkalda, og ætlar þá forsætisráðherra í næstu ræðu að falla frá henni? Hún hafði verulegar efasemdir um (Forseti hringir.) hina tvo kostina í Urriðafossi. Er ekki bara hægt að afgreiða tillögu ríkisstjórnarinnar hér, virðulegur forsætisráðherra? Af hverju standið þér í vegi fyrir því?