144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

rammaáætlun.

[11:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það verður að vekja athygli dr. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á því að hann er ekki í stjórnarandstöðu, hann er forsætisráðherra Íslands. Umhverfisráðherrar þeir sem hann hefur skipað, þau Sigurður Ingi Jóhannsson og Sigrún Magnúsdóttir, hafa bæði yfirvegað þessa stöðu og bæði komið með tillögu um einn virkjunarkost. Ríkisstjórn hans hefur haldið fundi og ákveðið að leggja þessar tillögur fram sem stjórnarfrumvarp. Ef það var sannfæring forsætisráðherra að það væri nauðsynlegt í orkuöflunarskyni að ganga miklu lengra er náttúrlega óskiljanlegt að slíkt stjórnarfrumvarp hafi komið fram. Þess vegna spyr ég enn og aftur, hæstv. forsætisráðherra: Er ekki bara hægt að hverfa frá hinum liðunum í þessari breytingartillögu núna í síðari ræðu yðar úr því að þér virðist geta fallið frá tillögu sem fram kom fyrir þremur dögum eins og ekkert sé héðan úr ræðustólnum og fjalla bara um þá tillögu sem yðar eigin ríkisstjórn gerði hér í þinginu? Þá er fullkomin sátt um málsmeðferðina þó að sumir þingmenn séu auðvitað á móti því að ráðast í þessa virkjun, en (Forseti hringir.) þá er sátt um málsmeðferðina og við sem styðjum tillögu yðar fáum tækifæri til að styðja hana. (Forseti hringir.) Má ekki ríkisstjórnin fá aðeins stuðning úr stjórnarandstöðunni annað veifið? (Forseti hringir.) Hafið þér eitthvað á móti því, virðulegur forsætisráðherra?