144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

ummæli forsætisráðherra um rammaáætlun.

[11:55]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við erum í síðari umr. um þingsályktunartillögu frá hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra með breytingartillögu frá meiri hluta atvinnuveganefndar þar sem tillaga umhverfisráðherra er fimmfölduð. Þetta er síðari umr. og í lok hennar er þess vænst að hægt verði að ganga til atkvæða um málið. Þetta er staðan. Þá kemur forsætisráðherra og kynnir breytingartillögu við breytingartillögu í samráði við umhverfisráðherra eins og ég skil málið. Ég spyr bara hæstv. forseta: Var hæstv. forseti upplýstur um þetta samkomulag? Sannarlega er mjög óvenjulegt að hæstv. forsætisráðherra komi inn í umræðuna með þessum hætti og komi svo í hinu orðinu með ákall um rökræður þegar hann hendir bara inn einhverri breytingartillögu um breytingartillögu. Ég spyr: Tekur þrjá daga að hrekja hvern af þessum virkjunarkostum (Forseti hringir.) meiri hlutans til baka? Ef það er svo skulum við bara taka (Forseti hringir.) þrjá daga á hverja virkjun fyrir sig og hrekja (Forseti hringir.) þetta allt saman til baka. En, (Forseti hringir.) virðulegur forseti, það verður að funda með þingflokksformönnum því að tillagan er ekki lengur á dagskrá. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)