144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

ummæli forsætisráðherra um rammaáætlun.

[12:11]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra kom í ræðustól áðan og greindi frá því að náðst hefði samkomulag eða að sátt hefði tekist, ekki milli minni hlutans í þinginu og meiri hlutans, ekki milli stjórnarandstöðunnar og ríkisstjórnarinnar, heldur milli formanns atvinnuveganefndar og hæstv. umhverfisráðherra um að draga til baka einn af þeim kostum sem taldir eru til í breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar. Mér finnst þetta með ólíkindum. Var hæstv. umhverfisráðherra að semja fyrir hönd stjórnarandstöðunnar á þeim sáttafundi sem þarna fór fram? Kom þá ekki til álita að við ættum að minnsta kosti einhverja aðild að því samkomulagi? Í mínum huga er þessi breyting álíka og að menn mundu tilkynna að þeir væru hættir við að setja kjarnorkuver í Þórsmörk og olíuhreinsunarstöð í Landmannalaugar. (Forseti hringir.) Þessi samningaleikur sem er eins og menn séu að skiptast á fótboltaspilum er ekki sæmandi. Ég ætla ekki að taka þátt í þessu.