144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

ummæli forsætisráðherra um rammaáætlun.

[12:14]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni, það eru helstu tíðindin á hverjum tíma þegar tekst að ná sátt á milli stjórnarflokkanna. Þar af leiðandi virðist ekki vera orka til að eiga við fleiri í þingsal.

Hæstv. forseta hefur greinilega óskiljanlega einbeittan vilja til að hafa áætlun um vernd og orkunýtingu á dagskrá og ég spyr: Mun hæstv. forseti tryggja að forsætisráðherra flytji breytingartillöguna sem hann boðaði áðan þannig að við fáum tækifæri til að ræða við hann í þinginu í samræmi við óskir hans um að ræða og rökræða? Mun hæstv. forseti þá tryggja að umhverfisráðherra verði í salnum, taki þátt í umræðunni og ræði málin? Þetta finnst mér skipta mjög miklu máli vegna þess að hér er nýtt innlegg í umræðuna og áður en við tölum okkur alveg þurr í síðari umr. um þingsályktunartillöguna er ekki verra að fá öll spilin upp á borðið.