144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

ummæli forsætisráðherra um rammaáætlun.

[12:15]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það sem ég átti við áðan þegar ég talaði um að hæstv. forsætisráðherra tilkynnti þetta er að annað eins hefur gerst í þinginu. Það veit ég þó að ég sé ekki hokin af þingreynslu. Menn hafa komið að máli hver við annan og konur og rætt mál sem skipta svo miklu máli til að reyna að finna fleti áður en þeir eru tilkynntir í þingsal. Þessi ríkisstjórn boðar mjög mikið samráð og samvinnu. Henni er samt ekki fyrir að fara nema þá helst að ríkisstjórnarflokkarnir séu að reyna að ná sátt og samlyndi sín á milli. Ekki bera þeir sig upp við stjórnarandstöðuna til að reyna að lenda málum með einhverjum hætti, enda á augljóslega að þröngva þessu í gegn. Eins og hér hefur komið fram er stjórnarandstaðan tilbúin að standa gegn þessu máli alla leið. Það að segja að hér sé búið að ná sátt, virðulegi forseti, er dónaskapur í ljósi (Forseti hringir.) málsins.