144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

ummæli forsætisráðherra um rammaáætlun.

[12:17]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mér þykja orðin ansi mikil lausatök á stjórn þingsins og lítil formfesta. Nú síðast kemur hingað hv. þm. Páll Jóhann Pálsson og talar um að það sé sjálfsagður hlutur að þreifingar fari fram um málin. Við hvern eiga þær þreifingar að fara fram? Er venjan að menn þreifi á sjálfum sér þegar þeir eru að leysa svona mál? [Hlátur í þingsal.] Er ekki venjulega talað um þreifingar við einhvern gagnaðila? Nei, nei, meiri hluti atvinnuveganefndar þreifar á sjálfum sér í málinu og forsætisráðherra tilkynnir niðurstöðuna. Hann er búinn að taka Hagavatnsvirkjun í faglega skoðun hjá sér og sínum og núna leggur hann til að það hafi ekki verið nógu faglega staðið að mati meiri hluta atvinnuveganefndar á Hagavatnsvirkjun. Þess vegna kemur hann með breytingartillögu um að draga hana til baka. Við skulum bara bíða eftir fleiri faglegum mötum sem koma frá ríkisstjórninni. (Forseti hringir.) Þetta er orðinn svo mikill skrípaleikur að hann er ekki fólki bjóðandi.