144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

ummæli forsætisráðherra um rammaáætlun.

[12:23]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það fer alltaf svolítið í taugarnar á mér þegar menn tala um lýðræði eins og það sé einhver afgangsstærð af ræðu til þess eins að geta klárað eitthvert svar hérna. Mér finnst hæstv. forsætisráðherra hafa gert það í dag þegar hann talaði um að hér bæri að setja málið á dagskrá og að hér ætluðum við að halda málefnalega rökræðu um þetta mál og væntanlega sannfæra hv. þingmenn meiri hlutans eða hæstv. ráðherra um ágæti þess að hafna þessari breytingartillögu á þeim forsendum að formið sé út úr kú. Hins vegar vitum við öll hvernig þetta virkar hérna. Þetta virkar ekki þannig að hér setjist niður hver þingmaður á fætur öðrum og hugsi með sér: Hver ætli sé rétta niðurstaðan? Nei, þingmenn taka ákvarðanir í þessum þingsal eftir því sem þeim er sagt þegar þeir eru í þeirri stöðu. Það er raunveruleikinn sem við búum við.

Það fer í taugarnar á mér þegar menn láta eins og þetta ferli sé lýðræðislegra en það er.