144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[14:34]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vonandi veit þingmaðurinn betur en það sem hann er að gefa hér í skyn því að samkvæmt bráðabirgðaákvæði því sem þá var í gildi bar mér, ásamt þáverandi iðnaðarráðherra, Katrínu Júlíusdóttur, og síðan Oddnýju G. Harðardóttur, að leggja málið í dóm almennings með opnu umsagnarferli í tólf vikur og taka mark á umsagnarferlinu. Það virkar kannski framandi fyrir hv. þingmann að gera það, en það var okkur ætlað samkvæmt lögunum. Og vegna þess að við fengum nýjar upplýsingar töldum við okkur ekki stætt á öðru en hlusta eftir almenningi. Það er kannski eitthvað sem hv. þingmanni finnst óþægileg og skrýtin tilhugsun.

Hv. þingmanni verður tíðrætt um rétt þingmanna til eins eða annars, rétt þingmanna til að leggja fram tillögur. Ég bið hv. þingmann aðeins að dýpka skilning okkar, sameiginlegan, á því hvað það þýðir. Þýðir það það að hv. þingmaður geti, sem fulltrúi í atvinnuveganefnd Alþingis, fært hvaða tillögu sem er, sem nú er í verndarflokki eða biðflokki, með gild lög um rammaáætlun — fært hvaða kost sem er, sem liggur fyrir samkvæmt niðurstöðu rammaáætlunar 2 — (Forseti hringir.) í nýtingarflokk og þar með vikið verkefnisstjórninni (Forseti hringir.) til hliðar? Telur hann það tækt?