144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:01]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlustaði af athygli á ræðu hv. þingmanns og þakka honum fyrir hana. Hann var fyrst og fremst að ræða verklag og vinnulag og að það væri æskilegra að hafa formfastara vinnulag, bæði í kjaraviðræðum og líka í því máli sem við ræðum hér, áætlun um vernd og nýtingu. Hins vegar langar mig að spyrja hv. þingmann út frá því sem hann gerði líka að umtalsefni, þ.e. almenna uppbyggingu til lengri tíma fyrir íslenskt efnahags- og atvinnulíf, hver afstaða hans sé til þess að um er að ræða náttúruna, það er hún sem er undir, sem er auðvitað orðin mesta tekjulind Íslendinga, í gegnum ferðaþjónustuna. Ferðamenn sem hingað koma koma að 80% rúmlega til að horfa á náttúruna. Því meira sem við göngum á hana því meira göngum við á þessa auðlind. Mér finnst algjörlega vanta þá sýn þegar við ræðum atvinnuuppbygginguna. Mig langar aðeins að heyra sjónarmið hv. þingmanns hvað þetta varðar.