144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:27]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Um það hef ég að segja að ég er ekki að halda því fram að allt manngert sé endilega hræðilegt. Öxarárfoss er dæmi um það þegar vatni var veitt af forfeðrum okkar á Þingvöllum til þess að tryggja vatn til þingfunda. Kannski hefði ég verið á móti því þá ef ég hefði fengið að sitja þingfundi, sem ég hefði vafalaust ekki fengið sem kona. En það breytir því ekki að manni finnst hann ósköp fallegur í dag.

Það sem ég er að benda á er að við eigum gríðarleg verðmæti í okkar ósnortnu náttúru, verðmæti sem engin önnur Evrópuþjóð státar af. Það er út af þeim verðmætum og þarf ekki annað en horfa á það efni svo dæmi sé tekið sem er nýtt til markaðssetningar á Íslandi. Hvað er verið að sýna okkur þar? Að megninu til þessa ósnortnu náttúru. Það er hún sem laðar hingað að ferðafólk sem ferðast síðan með mismunandi hætti. Margir fara ekki upp á hálendi, margir njóta náttúrunnar í aðeins manngerðara umhverfi. Ég er bara að benda á að þarna eigum við gríðarleg verðmæti sem við þurfum að ganga afar varlega um.