144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um leið og við hv. þingmaður erum mjög ósammála um þessi mál almennt séð, ekkert að því, menn hafa skiptar skoðanir á þessu, þá erum við þó sammála um að ósnortin náttúra er okkur mikilvæg. Ef horft er sérstaklega til þessarar þingsályktunartillögu þá er meginþemað í henni, sem er virkjanir í neðri Þjórsá og Skrokköldu, alls ekki ógn við ósnortna náttúru nema síður sé. Þar erum við á þannig svæðum.

Ég vil aðeins koma að þessu atriði með ferðamenn og virkjanir, að ferðamenn komi ekki til Íslands til þess að skoða virkjanir, og hér var farið yfir Bláa lónið. En það eru þúsundir á þúsundir ofan ferðamanna sem fara alveg sérstaklega að skoða virkjanir. Bara í Hellisheiðarvirkjun eina koma um 100 þús. ferðamenn á ári. Það gerir hana að einum af fjölsóttari ferðamannastöðum landsins. Leiðin hefur verið opnuð fyrir almenning og það er greið leið fyrir almenning og ferðamenn að koma á þessa staði.

Hv. þingmaður lýsti vel ferlinu sem fer fram og því sem fór fram á síðasta kjörtímabili og ákvörðun ráðherra þá um að taka tillit til þeirra fjölmörgu umsagna sem bárust. Það hefur reyndar ekki komið oft fram í umræðunni, en langstærstur hluti þeirra umsagna var dreifibréf þannig að fjöldinn segir nú ekki allt, það var svona hópbréf sem var sent.

Ég lít svo á að við séum í nákvæmlega sömu stöðu núna. Við erum að meta umsagnir. Við komumst að niðurstöðu eftir yfirferð þeirra umsagna, víðtækra umsagna. Mér fannst hv. þingmaður tala svolítið niður til heimamanna og (Forseti hringir.) sveitarstjórnarmanna hér áðan, ég get ekki gert að því, þegar hún sagði að þeir hefðu ekki sama vægi og aðrir í þessari umræðu. (Forseti hringir.) Við erum í nákvæmlega sama ferlinu.