144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:30]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann á móti: Hvort heldur hann að fleiri vilji horfa á Gullfoss óvirkjaðan eða virkjaðan? Eða Dettifoss? Eða Dynk sem margir hafa viljað virkja, glæsilegasta foss landsins? Það er ekki sama upplifun, og þar er ég ekki bara að tala fyrir sjálfa mig, að horfa á fossa sem átt hefur verið við og streyminu jafnvel stýrt í þeim og að horfa á ósnortna fossa. Fossar eru ein merkilegasta náttúra sem við getum horft á, vekja mann til umhugsunar um eilífðina og hvað þeir hafa lengi bunað á sínum stað. Skógafoss, þar faldi nú landnámsmaður gullkistu undir eins og við vitum. Þeir hafa verið hérna miklu lengur en við. Það er það sem skiptir svo miklu máli að velta fyrir sér. Þetta er náttúra sem er búin að vera hérna miklu lengur en við, verður hérna löngu eftir okkar daga líklega. Þess vegna þurfum við svolítið að velta fyrir okkur hvert okkar hlutverk er í samhengi við þessa náttúru.

Hvað varðar ferlið þá hafna ég því alfarið að ég hafi talað niður umsagnir sveitarfélaga eða heimamanna. Það er ekki rétt. Ég er að benda á það og ég tel það vera réttmæta athugasemd að við eigum ekki að rugla saman umsögnum sveitarfélaga, heimamanna og umsögnum fagaðila. Ég tel sjálfa mig með í þeim hópi. Ég er stjórnmálamaður. Ég get haft mínar skoðanir. Ég neyðist samt til þess að taka mark á umsögnum fagaðila. Það reyndi ég að gera til að mynda þegar ég las upprunalegu tillöguna, þar sem athugasemdirnar sem bárust í hinu lögbundna umsagnarferli fylgja allar með. Þær fylgja allar með hjá ráðherranum.

Það sem við höfum gagnrýnt er að í lögunum er kveðið á um að þetta umsagnarferli eigi sér stað og ráðherra leggi síðan sína tillögu fram. Þingið, eins og ég hef skilið það, geti gert breytingartillögur um flokkun, en að þingið leggi beinlínis til nýja möguleika, það er það sem (Forseti hringir.) ég hef mínar efasemdir um að standist lögin eins og þau voru hugsuð.