144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

minning Halldórs Ásgrímssonar.

[13:30]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Þau sorglegu tíðindi hafa borist að Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi alþingismaður og forsætisráðherra, hafi andast á sjúkrahúsi síðdegis í gær af völdum hjartaáfalls er hann hlaut þremur dögum áður. Halldór var aðeins 67 ára að aldri.

Halldór Ásgrímsson var fæddur á Vopnafirði 8. september 1947. Foreldrar hans voru hjónin Ásgrímur Halldórsson, framkvæmdastjóri á Höfn í Hornafirði, og Guðrún Ingólfsdóttir húsmóðir.

Halldór lauk prófi frá Samvinnuskólanum árið 1965 og hóf síðar nám í endurskoðun og fékk löggildingu sem endurskoðandi árið 1970. Hann stundaði framhaldsnám við verslunarháskólana í Björgvin og Kaupmannahöfn árin 1971–1973. Heimkominn varð hann lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands um tveggja ára skeið en helgaði sig eftir það stjórnmálastörfum og öðrum opinberum störfum.

Við brotthvarf forustumanna framsóknarmanna á Austurlandi úr stjórnmálum árið 1974, þar á meðal Eysteins Jónssonar, var leitað til hins unga háskólakennara um að taka sæti á lista flokksins við alþingiskosningarnar þá um sumarið. Þótt lítt þekktur væri átti Halldór djúpar rætur fyrir austan en faðir hans var leiðtogi Framsóknarflokksins í heimabyggð sinni, Höfn í Hornafirði, og afi hans og alnafni hafði verið alþingismaður Norðmýlinga og síðar Austurlandskjördæmis í meira en tvo áratugi.

Halldór Ásgrímsson var með yngstu mönnum kjörinn til þingsetu, og yngstur þingmanna Framsóknarflokksins í mörg kjörtímabil eins og hann sagði oft sjálfur í kímni. Varð þá þegar ljóst að þar fór framtíðarforingjaefni flokksins. Hann var aðaltalsmaður hans í efnahags- og viðskiptamálum og lét sig varða fjármál ríkisins og atvinnumál. Hann sat í bankaráði Seðlabankans 1976–1983 og var formaður þess síðustu þrjú árin.

Í alþingiskosningunum 1978 sem urðu Framsóknarflokknum erfiðar féll Halldór af þingi um skeið en var svo kosinn á þing á ný rúmu ári síðar, í desember 1979, og átti eftir það samfellda setu á þingi fram til 2006. Hann var ávallt kjörinn fyrir Austurlandskjördæmi nema í síðustu kosningum sínum, árið 2003, er hann var kjörinn þingmaður Reykv. n. Utan þings 1978–1979 vann hann ýmis störf, aðallega sem sjómaður, en var þó kvaddur á þing sem varamaður haustið 1978. Hann sat á 37 löggjafarþingum.

Eftir alþingiskosningarnar 1983 varð Halldór Ásgrímsson sjávarútvegsráðherra og gegndi því embætti samfellt í átta ár, á miklum umbrotatímum í íslenskum sjávarútvegi. Þá var komið á kvótakerfi í greininni og það þróað og fullmótað við lok ráðherraferils hans í því ráðuneyti 1991. Stóðu mikil átök um þau mál allan þann tíma. Á kjörtímabilinu 1987–1991 gegndi Halldór jafnframt störfum dóms- og kirkjumálaráðherra um eins árs skeið, 1988–1989, sem varð viðburðaríkur tími í þeim málaflokkum. Sem sjávarútvegsráðherra aflaði Halldór sér yfirburðaþekkingar á málefnum sjávarútvegs, naut óskoraðs trausts og var oft síðar kvaddur til þegar vandi steðjaði að í þeirri grein. Halldór var utan ríkisstjórnar 1991–1995 en gaf sig þá meðal annars að norrænu samstarfi, var formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og jafnframt eitt ár formaður efnahags- og viðskiptanefndar. Við afsögn Steingríms Hermannssonar 1994 var Halldór Ásgrímsson kjörinn formaður Framsóknarflokksins, en hann hafði þá verið varaformaður hans í 14 ár. Vann flokkurinn undir forustu hins nýja formanns góðan kosningasigur 1995. Í kjölfar hans varð Halldór utanríkisráðherra og gegndi því embætti í rúm níu ár, 1995–2004, lengur en nokkur annar. Hann varð forsætisráðherra í september það ár. Í maí 1999 gegndi hann um tíma störfum umhverfis- og landbúnaðarráðherra og í janúar og febrúar 2001 fór hann með heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Í júní 2006 ákvað Halldór að hverfa af vettvangi stjórnmála, sagði af sér sem alþingismaður eftir meira en 30 ár á þingi og sem ráðherra í rösk 19 ár. Á aðeins einn maður lengri ráðherraferil að baki en Halldór Ásgrímsson.

Haustið 2006 réðst svo, með samþykki forustumanna norrænu ríkjanna, að Halldór yrði framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar með aðsetur í Kaupmannahöfn. Naut hann þar reynslu sinnar og álits, auk þess sem hann var gjörkunnugur norrænu samstarfi sem þátttakandi í því um áratugaskeið og ráðherra norrænna samstarfsmála 1985–1987 og 1995–1999. Hinu umfangsmikla starfi framkvæmdastjóra gegndi hann fram á árið 2013. Störfum Halldórs, bæði sem utanríkisráðherra og framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, fylgdu mikil og oft erfið og löng ferðalög.

Eftir að opinberum embættisstörfum Halldórs lauk og hann fluttist til Íslands á ný sinnti hann störfum í ýmsum alþjóðlegum samtökum sem beita sér fyrir friði og mannréttindum.

Halldór Ásgrímsson aflaði sér þegar á fyrstu þingmannsárum sínum mikils trausts, ekki aðeins meðal flokksmanna sinna, heldur langt út fyrir raðir þeirra. Hann hafði yfirgripsmikla þekkingu á efnahags- og atvinnumálum og þótti stefnufastur stjórnmálamaður og var stundum líkt við klett í hafi. Í dagfari sínu var hann hægur og yfirvegaður og fór vel með sitt mikla skap og kappsemi. Hann var hlýr í viðmóti, drenglundaður og vinur vina sinna. Þótt alvörugefinn væri var jafnan stutt í glensið og hann hafði gaman af því að gleðjast með mönnum þegar honum þótti það við eiga. Það einkenndi störf Halldórs mest á farsælum ferli hans í stjórnmálum að hann var afkastamaður og ósérhlífinn en jafnframt óvenjulega glöggskyggn og sanngjarn. Sem foringi var hann óvílinn og tók af skarið þótt mál væru umdeild. Þeir sem þekktu og unnu með Halldóri Ásgrímssyni á Alþingi og í ríkisstjórn sakna nú góðs vinar og öflugs samstarfsmanns sem alltaf var hægt að treysta.

Við hið óvænta og ótímabæra fráfall Halldórs Ásgrímssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, á þjóðin að baki að sjá einum helsta stjórnmálaforingja sínum um áratugaskeið.

Ég bið þingheim að minnast Halldórs Ásgrímssonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]