144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

rammaáætlun og gerð kjarasamninga.

[14:36]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að þingstörf hafi verið hér í uppnámi í rúma viku vegna þess einbeitta vilja ríkisstjórnarinnar að setja á dagskrá breytingartillögu við rammaáætlun í blóra við gildandi lög í landinu og réttan framgangsmáta. Hæstv. forsætisráðherra segir við Ríkisútvarpið í gærkvöldi og kemur með þá réttlætingu fyrir þessum framgangsmáta að þetta sé mikilvægt mál til þess að greiða fyrir gerð kjarasamninga. Það er fullkomlega fráleitt, annars vegar vegna þess að það er ekki einn einasti greiningaraðili sem hefur komist að þeirri niðurstöðu að orkuskortur hamli hagvaxtarspá, og hins vegar vegna þess að ekki er hægt að finna ein einustu samtök launamanna í landinu sem kallað hafa eftir því að rammaáætlun og verklag hennar verði virt að vettugi. Þvert á móti liggur fyrir með skýrum hætti í umsögn Alþýðusambands Íslands áminning um hversu mikilvægt það er að grípa ekki fram fyrir hendur verkefnisstjórnarinnar heldur virða regluverkið sem búið var til um rammaáætlun, það sé það sem mestu máli skiptir.

Þetta mál verður því ekki til þess að greiða fyrir gerð kjarasamninga, það er í það minnsta ekki að ósk launþegahreyfingarinnar í landinu.

Virðulegi forseti. Það er hins vegar tvennt sem gæti orðið til þess að greiða fyrir gerð kjarasamninga og við vitum alveg hvað það er. Annað er tillögur um skattbreytingar til þess að auka jöfnuð í skattkerfinu, mæta þörfum fólks á lágum launum og létta þar með undir í gerð kjarasamninga. Hitt sem mundi skipta máli væru útfærðar tillögur á sviði húsnæðismála sem ríkisstjórnin er búin að lofa frá því að hún tók við, en það eru tvö ár síðan og það bólar ekkert á efndum. Ekkert virðist benda til að ríkisstjórnin sé að koma með raunhæfar tillögur sem þoli dagsins ljós á Alþingi. Ég verð þess vegna að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er ekki rétt að hann horfist nú í augu við það að til þess að greiða fyrir kjarasamningum sé mikilvægast að taka þetta rammarugl af dagskrá og setja hér á dagskrá málefni húsnæðismarkaðarins og alvörulausnir í húsnæðismálum?