144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

fjölgun virkjunarkosta og kjarasamningar.

[14:41]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langaði einmitt að spyrja hæstv. forsætisráðherra aðeins áfram út í þetta mál. Eins og hér kom fram þá sagði hæstv. forsætisráðherra í gær að það væri augljóst að fjölga yrði virkjunarkostum að mun frá því sem núgildandi rammaáætlun gerði ráð fyrir, það væri nauðsynleg verðmætasköpun til þess að innstæða yrði fyrir þeim ríku og að mörgu leyti réttmætu kjarabótum sem væri krafist á almennum og opinberum vinnumarkaði, þetta hlytu allir að sjá.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra í ljósi þess að það eru auðvitað fjöldamörg verkefni í undirbúningi, fjögur kísilver ef mér telst rétt til, sem eru meira og minna komin með sína orku. Við horfum hins vegar á ýmsar aðrar atvinnugreinar. Samtök ferðaþjónustunnar, samtök stærstu atvinnugreinar landsins, þeirrar atvinnugreinar sem er að skapa mestan gjaldeyri, telja mjög ámælisvert að verið sé að ganga fram hjá lögbundnu ferli rammaáætlunar í tillögu meiri hluta atvinnuveganefndar og horfa fremur til þess að það verði að fylgja lagarammanum. ASÍ, stærsta launþegahreyfing landsins, hefur sett fram umsögn og þótt hæstv. forsætisráðherra finnist gaman að grufla í gömlum skjölum eins og við vitum þá verður hann auðvitað að vitna til nýjustu heimilda þegar hann ræðir um afstöðu launþegahreyfingarinnar. Hvað segir ASÍ í umsögn sinni um málið? Jú, ASÍ segir: Fylgjum faglegu ferli. Leyfum verkefnisstjórn að klára umfjöllun um þessa kosti áður en við tökum afstöðu til þeirra.

Þannig að ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Ætlar hæstv. forsætisráðherra að tengja þetta mál við kjarasamninga? Er hann að segja fólkinu sem bíður eftir því að ríkið nái lausn með BHM og bíður eftir meðferð inni á spítala, að ef Alþingi gangi ekki fram hjá og hunsi lögbundið ferli rammaáætlunar þá verði ekki samið? Er hæstv. forsætisráðherra virkilega að setja málið í þetta samhengi? Mig langar að fá það alveg á hreint, herra forseti.